Gengi bréfa Icelandair Group hefur lækkað um 75% frá því það stóð hæst fyrir rúmlega tveimur árum. Þann 28. apríl árið 2016 nam verð hvers bréfs 38,75 krónum en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur gengi hlutabréfa Icelandair Group lækkað um rúm 24% í dag í 600 milljóna viðskiptum.

Verðhrun bréfanna í dag kemur í kjölfarið á því að félagið sendi frá sér kolsvarta afkomuviðvörun í gærkvöldi þar sem áætluð EBITDA félagsins fyrir árið í ár var lækkuð úr um 170 til 190 milljónir Bandaríkjadala í um 120 til 140 milljónir dala, sem er lækkun um 28%.

Lokagengið á föstudag nam 12,7 krónum en við verðlækkunina í dag fór það niður í 9,55 krónur við lok viðskipta. Björgólfur Jóhannesson hefur verið forstjóri Icelandair Group frá því í maí 2008 en ekki náðist í hann í dag vegna stöðu félagsins.