Hlutabréf Icelandair lækkuðu um rúm 5% í 482 milljóna króna viðskiptum dagsins, og hafa nú lækkað um samtals 14,3% það sem af er vikunni í 788 milljóna króna viðskiptum. Um helgina var sagt frá hrapi annarrar Boeing 737 Max 8 flugvélar á sex mánaða tímabili, og því að Indigo Partners hyggist setja hátt í 11 milljarða króna í Wow air. Fyrr í dag kyrrsettu svo bresk yfirvöld flugvélar af áðurnefndri gerð, og í kjölfarið kyrrsetti Icelandair sínar vélar.

Heildarviðskipti á aðalmarkaði Kauphallarinnar námu 2,4 milljörðum króna í dag og úrvalsvísitalan lækkaði um 0,69% í viðskiptum dagsins.

Mest hækkuðu Heimavellir um 3,25% í 135 milljóna króna viðskiptum, en þar á eftir komu bréf VÍS með 1,91% hækkun í 62 milljóna viðskiptum og Sjóvá með 1,08% hækkun í 72 milljónum.

Icelandair lækkaði mest allra félaga, auk þess að vera veltumesta félagið, en þar á eftir komu bréf Sýnar með 3,07% lækkun í 73 milljóna króna viðskiptum, og Eimskip með 1,86% lækkun í litlum 19 milljónum.

Næstmest velta var með bréf Reita, sem hækkuðu um 0,75% í 434 milljóna króna viðskiptum, og þriðja sætið vermdu bréf Eikar með 0,59% hækkun í 342 milljóna króna viðskiptum.