Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,23% í 3,5 milljarða viðskiptum dagsins, en hún hélst samt sem áður yfir 1.800 stiga markinu, eða nánar tiltekið í 1.802,34 stigum.

Aðalvísitala Skuldabréfa lækkaði einnig, eða um 0,08% í 6 milljarða viðskiptum og fór hún niður í 1.366,45 stig.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun byrjuðu viðskipti dagsins með nokkuð bröttum lækkunum , en þær virðast hafa gengið til baka þegar leið á daginn og er lækkun Úrvalsvísitölunnar lægri en þá var. Jafnframt hækkaði gengi fleiri fyrirtækja en lækkuðu, en í morgun höfðu öll fyrirtækin lækkað í virði í fyrstu viðskiptum.

Icelandair er enn þá það fyrirtæki sem lækkaði mest, en að endingu nam lækkun dagsins 1,85% í 397 milljón króna viðskiptum og nemur gengi bréfa félagsins 15,95 krónum.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Reginn, en hún var 1,36% í 76 milljón króna viðskiptum og lækkaði verðmæti bréfa fasteignafélagsins niður í 25,30 krónur.

Mest viðskipti með bréf Marel

Mest hækkun var á gengi bréfa Sjóvá-Almennra, en gengi bréfa félagsins hækkaði um 2,02% í 63 milljóna króna viðskiptum. Standa bréfin nú í 17,65 krónum.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa N1 , eða um 1,94% í 412 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 131,50 krónur.

Mest viðskipti voru svo með bréf Marel, eða fyrir tæpa 1,3 milljarða króna en þau hækkuðu um 0,33%. Í dag er arðleysisdagur bréfa félagsins enda var aðalfundur Marel haldinn í gær.