Gengi bréfa Icelandair lækkaði mest í viðskiptum í kauphöll Nasdaq á Íslandi í dag, eða um 5,19%, niður í 8,22 krónur hvert bréf, í 255 milljón króna viðskiptum. Þar með hafa bréf félagsins lækkað um rétt rúmlega fimmtung síðan uppgjör félagsins frá síðasta ári var birt á fimmtudag, en eins og V iðskiptablaðið sagði frá nam tap félagsins 6,7 milljörðum á árinu 2018.

Eru það jafnframt næstmestu viðskiptin með bréf í einu félagi á markaði í dag, en mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða fyrir 704 milljónir króna. Hækkuðu jafnframt bréf Marel mest, eða um 1,25% og standa nú í 444,50 krónum.

Einungis tvö önnur félög hækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, það eru fasteignafélögin Reitir sem hækkuð um 0,28%, upp í 71,20 krónur hvert bréf, í 154 milljóna króna viðskiptum, og Ek sem hækkaði um 0,24% í 50 milljóna króna viðskiptum. Fást bréf félagsins nú á 8,34 krónur.

Þrjú félög í kauphöllinni hreyfðust ekki í verði, það er hin tvö fasteignafélögin, Reginn, sem þó var í 94 milljóna króna viðskiptum og svo íbúðafasteignafélagið Heimavellir, en fyrir liggur tillaga um að afskrá það félag úr kauphöllinni.

Loks var næst mest lækkunin á gengi bréfa Eimskipafélagsins eða um 1,22%, í þó ekki nema 22 milljóna viðskiptum og fæst hvert bréf félagsins nú á 202 krónur. Þó fremur rautt hafi verið um að litast í kauphöllinni í dag, hækkaði Úrvalsvísitalan þó um 0,26%, upp í 1.732,28 stig, en heildarveltan á markaði nam 1,4 milljörðum króna.