Óhætt er að segja að Icelandair hafi átt nokkuð viðburðaríkan dag í kauphöllinni. Flugfélagið endaði daginn með 5,71% lækkun í 233 milljóna króna viðskiptum frá opnunarverði, eftir að hafa hækkað eftir opnun í morgun, og verið hærri en við opnun til klukkan 2 eftir hádegi í dag. Önnur hlutabréf lækkuðu nánast öll, og úrvalsvísitalan lækkaði um 1,71% í samtals 3,4 milljarða veltu á aðalmarkaði.

Viðskipti stöðvuð eftir hækkun í upphafi dags
Hlutabréf Icelandair hófu daginn á að hækka nokkuð frá opnunarverði sínu, og voru komin í 11,95 krónur á hlut fyrir hádegi. Klukkan 10:21 voru viðskipti með bréfin hinsvegar stöðvuð að beiðni Fjármálaeftirlitsins , til að vernda jafnræði fjárfesta, að því er fram kom í tilkynningu.

Í kjölfarið lækkuðu flest félög í kauphöllinni og um hálf 12 var úrvalsvísitalan 1,41% lægri en við opnun.

Laust fyrir hádegi gaf svo stjórn flugfélagsins út tilkynningu þess efnis að ólíklegt væri að öll skilyrði fyrir kaupum þess á Wow air yrðu uppfyllt fyrir fyrirhugaðan hluthafafund næstkomandi föstudag þar sem til stendur að taka kaupin fyrir. Eftir tilkynninguna afturkallaði eftirlitið stöðvunina og viðskipti hófust að nýju upp úr hádegi.

Fyrst um sinn héldu bréf flugfélagsins í hækkanir morgunsins, en um 2 leytið voru þau komin undir opnunarverð, og laust fyrir hálf 3 voru þau komin í 11,5 krónur á hlut, sem er um 2% lækkun.

Skúli ræðir við aðra fjárfesta
Klukkan hálf 3 sagði svo Fréttablaðið frá því að Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri Wow air, hefði sent starfsfólki tölvupóst þar sem fram hafi komið að félagið ætti í viðræðum við aðra áhugasama fjárfesta en Icelandair.

Í kjölfarið tóku bréf Icelandair nokkra dýfu, og um 3 leytið voru þau komin undir 11,2 krónur á hlut, og enduðu daginn í 11,06 krónum, 5,71% lægra en við opnun, eins og áður sagði.

Miklar lækkanir á aðalmarkaði
16 félög enduðu daginn lægri en við opnun, bréf Eimskips stóðu óhreyfð, og bréf HB Granda, eins skráðra félaga, hækkuðu um 0,72% í 177 milljón króna viðskiptum.

Að Icelandair frátöldu lækkuðu bréf Símans mest, um 2,79% í 350 milljón króna viðskiptum, og þar á eftir kom Sýn með 2,44% lækkun í 269 milljón króna viðskiptum. 4 önnur félög lækkuðu um yfir 2%, og 7 félög þeim til viðbótar um yfir 1%.

Mest viðskipti voru með bréf Festar, rétt tæpar 500 milljónir króna, sem skiluðu 2,09% lækkun, en þar á eftir kom Síminn, og á eftir honum Sýn. Viðskipti með önnur félög námu um eða undir 250 milljónum króna.