Icelandair mun halda hlutafjárútboð fyrir núverandi hluthafa félagsins sem ljúka mun 14. desember og greiðsla á að hafa borist fyrir áramót samkvæmt dagskrá hluthafafundar félagsins þann 30. nóvember.

Á fundinum liggja fyrir tillögur um að auka hlutafé Icelandair um 625 milljónir hluta að nafnvirði auk þess sem gefa á út allt að 334,9 milljónir hluta í tengslum við kaupin á Wow air. Í kaupsamningnum um Wow air, sem er í eigu Títan fjárfestingafélags Skúla Mogensen, var kveðið á um að Skúli fengi 0% til 4,8% hlut í Icelandair fyrir 100% hlut sinn í Wow til viðbótar við 1,8% hlut í Icelandair fyrir víkjandi lán Títan til Wow.

Miðað við markaðsgengi hluta í Icelandair við lokun markaða í gær eru 625 milljónir um 7,4 milljarða króna virði en 334,9 milljónir hluta eru um 3,9 milljarða króna virði. Selja á hina nýju hluti í Icelandair, sem ekki renna til Títan í tveimur skrefum.

Í fyrsta lagi verða 499 milljónir hluta seldir í lokuðu hlutafjárútboði til núverandi hluthafa þar sem hver hluthafi megi ekki kaupa hluti fyrir minna en 100 þúsund evrur, um 14 milljónir íslenskra króna. Því útboði á að ljúka 14. desember og skal greiðsla hafa borist fyrir áramót eins og áður segir. Gengi hluta í hlutafjárútboðinu verður miðað við ákvörðun stjórnar þremur dögum fyrir hlutafjárútboð í fyrra tilfellinu en samkvæmt kaupsamningi við Wow air í síðara tilfellinu.

Í síðari hluta útboðsins mun Icelandair selja hluthöfum og hugsanlega öðrum aðilum 126 milljónum hluta til viðbótar. Fjöldi hluta í síðari hlutanum kann að aukast ef ekki tekst að selja alla 449 milljón hlutina í fyrra útboðinu. Þar munu hluthafar hafa forgang á nýja hluti hafi þeir ekki tekið þátt í fyrra útboðinu. Þar skulu hlutirnir seldir að hámarki á sama gengi og boðið verður í lokaða útboðinu.

Tillögurnar um hlutafjárhækkun munu gilda í ár eða fram til 1. desember 2019. Þá segir jafnframt að kostnaður Icelandair við hlutafjárátboðið verði um 150 milljónir króna.