Greiningaraðilar hjá Capacent meta bréf Icelandair á 16,3 krónur á hlut eða 33% yfir markaðsgengi sem stendur í 12,3 krónur á hlut. Því telja þeir félagið í heild metið á um 78,9 milljarða króna en markaðsvirðið er 59,4 milljarðar króna.

Endurskoðun á rekstaráætlun Icelandair hefur hækkað verðmat Capacent um 25%. Frá því að síðasta verðmat kom út hjá greiningarfyrirtækinu hefur gengi krónunnar veikst um 15% gagnvart dollar og olíuverð lækkað um 13%.

Í rekstaráætluninni spá greiningaraðilar Capacent því að olíukostnaður nemi um 28% af tekjum af flugfargjöldum sem er jafnt meðaltali síðustu 5 ára. Það er þó gengisveiking krónunnar sem lækkar launakostnaðarhlutfallið um nokkur prósent sem er ástæða hækkunar á verðmatinu.

Nýjar og sparneytnari vélar hafa gert það að verkum að Icelandair er nú betur í stakk búið til að takast á við hærra olíuverð nú heldur en fyrir tveimur árum síðan.

„Flugmarkaðurinn er sveiflukenndur og fjárfestingafrekur og getur lítið frávik í forsendunum t.d. hvað varðar olíuverð haft mikil áhrif á rekstrarafkonu og verðmat. Þessu til viðbótar bætist við áhættan af mjög sveiflukenndri smámynt hjá íslenskum flugfélögum," segir í verðmatinu.