Icelandair Group seldi í dag óverðtryggð skuldabréf að fjárhæð 150 milljón dollara til fjárfesta eða því sem samsvarar 17,2 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flugfélaginu.

Skuldabréfin eru til fimm ára og bera 3,5% vexti, ofan á þriggja mánaða LIBOR-vexti, án vaxtagólfs. Fjármagnið verður nýtt til fyrirframgreiðslna inn á nýjar flugvélar félagsins og einnig í fjármögnun annarrar starfsemi Icelandair Group.

Fyrsta erlenda skuldabréfaútgáfan í mörg ár

Haft er eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group, að þetta sé fyrsta skuldabréfaútgáfa Icelandair á erlendum markaði og einnig fyrsta fyrirtækið, fyrir utan fjármálastofnanir, sem gefur út skuldabréf á erlendum markaði í mörg ár.

Hann telur niðurstöðuna mjög ánægjulega, þar sem að kjörin í skuldabréfa útgáfunni eru þau bestu sem norrænu flugfélagi bjóðast í óverðtryggðum skuldabréfum. Einnig telur hann kjörin hagstæð ef litið er til margra alþjóðlegra flugfélaga sem Icelandair ber sig gjarnan saman við.

Pareto Securities AB hafði umsjón með skuldabréfaútgáfunni.