Icelandair og breski flugskólinn L3 Commercial Aviation hafa gert samkomulag um að skólinn taki inn, þjálfi og útskrifi verðandi flugmenn félagsins. L3 skólinn verður hluti af þeirri námsbraut sem Icelandair setti af stað á síðasta ári m.a. í samstarfi við Flugakademíu Keilis og Flugskóla Íslands til þess að styðja áframhaldandi vöxt félagsins og tryggja hæft starfsfólk til framtíðar.

Icelandair mun aðstoða nemendur við fjármögnun námsins hjá L3, líkt og öðrum skólum í námsbrautinni, og þeir nemendur sem standast kröfur Icelandair munu njóta forgangs til starfa hjá félaginu að námi loknu. Námið er öllum opið gegn ákveðnum skilyrðum, m.a. íslenskukunnáttu, en ekki er gerð krafa um að umsækjendur hafi nú þegar hafið flugnám.

L3 Commercial Aviation skólinn er með starfsemi víða um heim og útskrifar í heild um 1500 flugmenn frá ýmsum löndum á þessu ári. Gert er ráð fyrir að íslensku flugnemarnir hefji sitt nám í starfsstöð skólans á Nýja Sjálandi.

„Þessi leið við nám og þjálfun nýrra flugmanna sem við settum af stað í fyrra hefur gengið vel og gott að geta styrkt það enn frekar með samningi við þennan viðurkennda og öfluga flugskóla.“, segir Þ. Haukur Reynisson flugrekstrarstjóri Icelandair.

Nánari upplýsingar um námsbrautina og skráning á kynningarfundi í næstu viku er á https://www.icelandair.com/is/blogg/flugmenn-til-framtidar/