*

mánudagur, 21. janúar 2019
Innlent 12. júní 2015 11:06

Icelandair stundvísast í maí

Brottfarir og komur Icelandair voru á réttum tíma í um 89% tilvika í maí.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Flugfélagið Icelandair var stundvísast bæði í brottförum og komum til Keflavíkur í síðasta mánuði. Hlutfall brottfara á réttum tíma nam 89% og hlutfall lendinga á réttum tíma var 88%. Þetta kemur fram í mánaðarlegri skoðun Dohop á stundvísi flugfélaganna.

Mestar seinkanir í komum voru hjá Wow air en breska lággjaldaflugfélagið Easyjet var með mestar seinkanir við brottför frá Keflavík. Brottfarir Wow air voru á réttum tíma í 81% tilvika en hjá Easyjet var hlutfallið aðeins 74%. Þá voru lendingar Wow air á réttum tíma í 74% tilvika en hjá Easyjet í 85% tilvika.

Af öllu áætluðu flugi í maí voru aðeins tvö flug felld niður, bæði hjá Easyjet. Lengstu meðaltafirnar voru einnig hjá easyJet, en ef seinkun var við brottför hjá þeim, eins og var í 26% tilvika í maí, máttu ferðalangar búast við að rúmlega 16 mínútna töf að meðaltali.

Dohop tekur aðeins saman tölur flugfélaga með fleiri en 50 áætlunarflug á mánuði. Þýska flugfélagið Air Berlin er núna nálægt því að komast á listann. Ef það hefði verið tekið með væri það stundvísasta félagið frá Keflavík í síðasta mánuði með 91% brottfara á réttum tíma, en óstundvísast til Keflavíkur með 63% lendinga á réttum tíma.

Stikkorð: Icelandair Dohop Wow Easyjet Stundvísi flugfélaga air