Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq hækkaði um 3,71% í viðskiptum dagsins. Hún stendur því nú í 1.691,70 stigum. Heildarvelta á mörkuðum nam 10,231 milljörðum þar af var velta á hlutabréfamarkaði 5,7 milljarðar og 4,5 milljarðar á skuldabréfamarkaði.

Flest félög úrvalsvísitölunnar hækkuðu í viðskiptum dagsins. Mest hækkaði þó gengi bréfa Marels en þau hækkuðu um 7,39% í 1.319 milljón króna viðskiptum. Eftir nokkurn lækkunarfasa, hækkaði nú gengi bréfa Icelandair Group um 4,38% í 778 milljón króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa HB Granda tók jafnframt stökk og hækkaði gengið um 6,21% í 228 milljón króna viðskiptum.

Einnig hækkaði gengi bréfa N1 talsvert í dag eða um 3,47% í 558 milljón króna viðskiptum. Eina félagið sem lækkaði í dag var Hagar en gengi hlutabréfa félagsins lækkaði um 0,96% í 326 milljón króna viðskiptum.