Icelandic Water Holdings ehf., framleiðandi Icelandic Glacial lindarvatnsins, hefur hlotið fyrstu verðlaun fyrir bestu umhverfisáætlunina á árlegri ráðstefnu vatnsframleiðenda. Ráðstefnan, sem nefnist BottledWaterWorld, er ein helsta samkoma vatnsframleiðeinda í heiminum. Hún er haldin í Mexíkóborg og tók Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Water Holdings, á móti viðurkenningunni, að því er fram kemur í frétt frá félaginu.

Icelandic Glacial var  tilnefnt í flokknum ?besta framtak til sjálfbærni? (e. Best Sustainability Initiative). Ennfremur voru Coca-Cola, Nestlé og Danone, framleiðandi Evian vatnsins, tilnefnd í þessum flokki fyrir sérverkefni í umhverfismálum.

Icelandic Glacial hlaut í júní síðastliðnum vottun frá CarbonNeutral samtökunum í Bretlandi fyrir áætlun um ráðstafanir til kolefnisjöfnunar. Þar á meðal er notkun vistvænna orkugjafa á borð við jarðvarma og rafmagn frá vatnsaflsvirkjunum í verksmiðju félagsins í Þorlákshöfn, endurvinnsla og kolefnisbinding. Það er ekki síst á grunni þessarar áætlunar sem fyrirtækið hlýtur fyrstu verðlaunin á ráðstefnunni í Mexíkó.

Umhverfismál, ekki síst sjálfbærni, eru meginþemu BottledWaterWorld  ráðstefnunnar að þessu sinni og nýtur þessi verðlaunaflokkur því sérstakrar athygli. Á ráðstefnunni eru ennfremur veitt verðlaun í ýmsum öðrum flokkum vatnsframleiðslu, þar á meðal fyrir markaðssetningu, útlitshönnun og nýjungar. Alls bárust 169 tilnefningar frá 32 löndum í hina ýmsu verðlaunaflokka.

?Þessi verðlaun eru gríðarlega mikilvæg fyrir markaðssetningu Icelandic Glacial, jafnt í Evrópu sem Norður-Ameríku. Þau beina athyglinni að þessu nýja íslenska vörumerki, sem hér hefur vinninginn á stærstu og þekktustu vörumerkin í heimi vatnsframleiðslunnar. Ekki síður skiptir máli að við hljótum þessi verðlaun fyrir umhverfisstefnu okkar, en augu heimsins beinast í vaxandi mæli að ábyrgð atvinnulífsins gagnvart hlýnun jarðar. Við vonumst svo sannarlega til að sem flest fyrirtæki feti í fótspor okkar í viðleitni til að draga úr umhverfisáhrifum í starfsemi sinni,? segir Jón Ólafsson stjórnarformaður Icelandic Water Holdings, sem framleiðir Icelandic Glacial.

Á ráðstefnunni í Mexíkóborg flutti Patrick Racz, framkvæmdastjóri Icelandic Water Holdings, ítarlegt erindi um ráðstafanir fyrirtækisins til að draga úr gróðurhúsaáhrifum.

Um Icelandic Water Holdings ehf.
Icelandic Water Holdings ehf var stofnað í apríl 2004. Höfuðstöðvar þess eru í Þorlákhöfn og söluskrifstofur í London og Los Angeles. Fyrirtækið hefur einkarétt á að nýta lindarvatn úr Ölfusbrunni. Icelandic Glacial lindarvatnið hefur hlotið góðar undirtektir á mörkuðum í Evrópu og Norður-Ameríku og nýlega keypti bandaríska brugghúsið Anheuser-Busch fimmtungs hlut í fyrirtækinu og tók að sér dreifingu þess í Bandaríkjunum. Bygging nýrrar átöppunarverksmiðju félagsins er hafin í Þorlákshöfn og tekur hún til starfa næsta sumar.