Icelandic Group, sem er í eigu Framtakssjóðs Íslands, tapaði rúmlega 687,5 milljónum króna af rekstri sínum á árinu 2014. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins, en vegna gengisbreytinga endaði tapið á að vera innan við hálf milljón.

Árið 2013 hafði Icelandic Group hagnast um rúmar 325 milljónir króna af starfsemi sinni og er því um rúmlega milljarðs króna sveiflu að ræða ef litið er framhjá gengisbreytingum. Brúttó hagnaður fyrirtækisins, þ.e. tekjur að frádregnu kostnaðarverði seldra vara, var 9,3 milljarðar króna og breyttist nánast ekkert á milli ára. Það sem skýrir tap ársinsí fyrra er virðisrýrnun, sem jókst úr 259 milljónum í rúmar 850 milljónir á milli ára.

Hins vegar höfðu gengisbreytingar mjög jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins í fyrra. Samanborið við tæplega 200 milljóna króna tap vegna gengisbreytinga á árinu 2013, þá skiluðu gengisbreytingar 687 milljóna króna hagnaði í ár. Því er heildartap ársins ekki nema um 450 þúsund krónur, samanborið við 127 milljóna króna hagnað í fyrra þegar gengisbreytingar voru teknar með.

Eignir fyrirtækisins nema rúmlega 38 milljörðum króna og drógust örlítið saman á milli ára. Eigið fé stóð nokkurn veginn í stað í 18,6 milljörðum króna. Skuldir lækkuðu úr 21 milljarði í 19,4 milljarða.