Eignarhaldsfélagið Icelandic Group hyggst selja dótturfélag sitt Gadus í Belgíu og mun Íslandsbanki hafa umsjón með söluferlinu.

„Gadus sérhæfir sig í vinnslu og sölu á ferskum og kældum sjávarafurðum, einkum laxi og þorski, en um þriðjungur af hráefni félagsins kemur frá Íslandi,“ segir í frétt Íslandsbanka um málið.

Með um 130 starfsmenn

„Meðal viðskiptavina félagsins eru nokkrar af helstu smásölukeðjum í Belgíu en Gadus er annað stærsta fyrirtækið í sölu á ferskum fiskafurðum í landinu.

Gadus nýtur langvarandi traustra viðskiptasambanda við bæði viðskiptavini sína og birgja og skrifaði undir einkasölusamning við stóran smásöluaðila í Belgíu á árinu 2015.

Gadus selur um 7.000 tonn af afurðum árlega og námu tekjur árið 2016 um 11 milljörðum króna. Starfsmenn félagsins eru um 130 talsins.“

Í eigu Framtakssjóðs Íslands

Icelandic Group, sem er eignarhaldsfélag um fyrirtæki sem sérhæfa sig í framleiðslu og sölu á sjávarfangi, er móðurfélag Icelandic Trademark Holding (ITH) sem er eigandi vörumerkjanna ´Icelandic´ og ´Icelandic Seafood´ og heldur utan um markaðssetningu vörumerkjanna og þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi.

„Í Bandaríkjunum er Icelandic í samstarfi við Highliner Foods sem er leyfishafi og selur vörur undir vörumerkinu ´Icelandic Seafood´ inn á hótel og veitingahúsamarkað,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Á Spáni er Icelandic í samstarfi við Ibérica sem er leyfishafi og selur vörur undir vörumerkinu ´Icelandic Seafood´ inn á hótel og veitingahúsamarkað á Spáni, Frakklandi, Portúgal, og Ítalíu.

Icelandic Group er í 100% eigu Framtakssjóðs Íslands (FSÍ). FSÍ er fjárfestingarsjóður í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS.“