Icelandic Group hefur selt dótturfélag sitt á Spáni, Icelandic Ibérica, til Solo seafood ehf. sem er í eigu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sem eru meðal helstu birgja Icelandic Ibérica, eins og Fisk-Seafood, Jakob Valgeir, Nesfiskur og Sjávarsýn ehf.

Vörumerki fylgir ekki með

Vörumerki félagsins, Icelandic Seafood, fylgir ekki með í kaupunum, en samhliða kaupunum gerðu aðilarnir með sér leyfissamning sem gefur kaupanda rétt á notkun á vörumerkinu í Suður-Evrópu.

Framkvæmdastjóri Icelandic Ibérica undanfarin tuttugu ár, Hjörleifur Ásgeirsson, mun stýra félaginu áfram.

Einn helsti söluaðili léttsaltaðs þorsks

Um árabil hafa fyrrgreindir framleiðendur selt vörur til veitingastaða í Suður-Evrópu fyrir milligöngu Icelandic Ibérica, og er markmið kaupenda að efla sölu og markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum undir vörumerkinu, segir í fréttatilkynningu.

Selur félagið til meira en fjögur þúsund viðskiptavina í fimm löndum í Suður Evrópu, en það er einn helsti sölu- og dreifingaraðili á léttsöltuðum þorski frá Íslandi ásamt öðru frosnu sjávarfangi. Námu tekjur þess rífleag 100 milljónum evra á síðasta ári en starfsmenn þess eru um 140.

Í eigu Framtakssjóðs Íslands

„Við erum ánægð með þessa niðurstöðu og teljum að aðkoma íslenskra framleiðenda að Ibérica gefi félaginu tækifæri til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða undir okkar sterka vörumerki, Icelandic Seafood, enn frekar,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, sem á Icelandic Group að fullu.

Fjárfestingarbankinn Kvika var ráðgefandi við söluna fyrir kaupendur, en Íslandsbanki var ráðgjafandi Icelandic Group.

Vörumerkin Icelandic og Icelandic Seafood

Icelandic Group velti 500 miljónum evra á síðasta ári, en félagið er eignarhaldsfélag sem heldur utan um dótturfyrirtæki félagsins í Bretlandi, Belgíu, Spáni og Íslandi. Öll sérhæfa þau sig í framleiðslu og sölu á sjávarfangi.

Nýtt dótturfyrirtæki Icelandic Group, Icelandic Trademark Holding, er nú eigandi Icelandic og Icelandic Seafood vörumerkjanna og mun það halda utan um alla markaðssetningu vörumerkjanna ásamt þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi.

Félagið er í samstarfi við Highliner Foods í Bandaríkjunum, en það er leyfishafi vörumerkisins þar í landi og selur vörur undir merkjum þess inn á hótel og veitingahúsamarkað þar í landi.