Stjórn Icelandic Group hf. hefur ákveðið að hefja opið söluferli á dótturfélagi sínu, Icelandic Ibérica á Spáni. Salan er liður í þeirri stefnu Framtakssjóðs Íslands, sem á Icelandic Group að fullu, að einfalda og endurskipuleggja rekstur Icelandic Group.

Icelandic Ibérica S.A., eitt fjögurra dótturfélaga Icelandic Group, er einn helsti sölu- og dreifingaraðili á léttsöltuðum þorski frá Íslandi ásamt ýmsu öðru frosnu sjávarfangi. Félagið selur sjávarafurðir til meira en 4.000 viðskiptavina í fimm löndum í Suður-Evrópu. Tekjur Icelandic Ibérica á síðasta ári námu ríflega 100 milljónum evra og starfsmenn eru um 140 talsins.

Vörumerki félagsins, Icelandic Seafood, fylgir ekki með í kaupunum á Icelandic Ibérica. Icelandic Group mun áfram eiga vörumerkið Icelandic Seafood™ en kaupandi hefur rétt til notkunar á því í Evrópu (helstu markaðssvæðum Icelandic Ibérica).