Ávöxtunarkrafa skuldabréfa hefur lækkað töluvert á markaði í dag og er allt iðjagrænt orðið í kauphöllinni, þar sem nánast öll hlutabréf hafa hækkað í virði. Hefur þetta gerst síðan tilkynnt var um stýrivaxtalækkun Seðlabankans fyrir opnun markaða í morgun sem Viðskiptablaðið sagði frá .

Ávöxtunarkrafan á útgefnum skuldabréfum hefur í flestum tilvikum lækkað, mest í óverðtryggðum bréfum þar sem hún hefur lækkað um 9 til 15 punkta. Heildarviðskiptin með óverðtryggð bréf nemur þegar þetta er skrifað 4.157 milljörðum króna, en viðskiptin eru nokkuð minni í kauphöllinni, eða fyrir rétt rúma 1,4 milljarða.

Eina fyrirtækið sem hefur lækkað í verði er Nýherji, sem hefur lækkað um 1,73% í litlum viðskiptum, eða fyrir 7 milljónir króna. Öll önnur fyrirtæki hafa hækkað í verði það sem af er viðskiptadegi, nema bréf Granda og Össurar, sem staðið hafa í stað.

Reitir, Hagar og Skeljungur hækkað mest

Mest hækkun hefur verið á bréfum Reita, eða um 2,61% í 286 milljón króna viðskiptum, og er fyrirtækið jafnframt það sem mest viðskipti hafa verið með í dag. Er gengi bréfanna þegar þetta er skrifað 108,25 krónur á hlut.

Næst mestu viðskiptin í kauphöllinni sem og næst mesta hækkunin, voru með bréf Haga, sem hækkuðu um 2,33% í 183 milljón króna viðskiptum og eru bréfin nú skráð á 54,90 krónur. Þar á hælana kemur hækkun á gengi bréfa Skeljungs, sem hafa hækkað um 2,32% í 44 milljón króna viðskiptum, og fæst nú hvert bréf félagsins á 12,65 krónur.