Félög iðnaðarmanna hafa slitið kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins og segir Kristján Þórður Snæbjarnarson talsmaður þeirra að nú hefjist undirbúningur fyrir verkfallsaðgerðir að því er RÚV segir frá.

Eins og kom fram í fréttum í gær slitu Starfsgreinarsambandið sínum viðræðum við SA, en í dag kom fram að ástæðan væri að stórum hluta vegna tillagna um breytingar á neysluhléum, dagvinnutíma og yfirvinnu .

„Við teljum að það þurfi að auka þrýsting á viðsemjendur okkar til að komast lengra,“ segir Kristján Þórður sem vill ekki upplýsa um deilumálin í smáatriðum, þó m.a. sé það vinnutíminn.

„Við mátum bara hvernig staðan er fram undan hjá okkur og það var niðurstaðan að það var bókaður árangurslaus fundur hjá sáttasemjara. Það þýðir að viðræður slitna á þessum tímapunkti.“

Ná þarf lendingu á skömmum tíma

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segir sama takt hafa verið á viðræðunum við SGS og iðnaðarmenn, en um var að ræða áttunda sáttafundinn við iðnaðarmenn frá því að viðræðurnar hófust í nóvember.

„Staðan er auðvitað orðin grafalvarleg og það er öllum augljóst sem með þessu fylgjast að við þurfum að ná lendingu í þetta mál á breiðum grunni gagnvart öllum almenna vinnumarkaðnum á tiltölulega skömmum tíma ef ekki á illa að fara,“ segir Halldór Benjamín sem vill heldur ekki upplýsa í hverju ágreiningurinn sé fólginn.