Jose Manuel Soria, iðnaðarráðherra Spánar, sagði af sér í dag eftir að hafa verið bendlaður við Panama-skjölin svonefndu. Hann hefur neitað allri sök, en segir af sér til þess að lágmarka þann skaða sem það gæti haft fyrir flokk sinn, Flokk fólksins (s. Partido Popular). Frá þessu er sagt í frétt Reuters um málið.

Tveir spænskir fjölmiðlar héldu því fram að Soria ásamt bróður sínum væri eigandi aflandsfélags á bresku eyjunni Jórvík, sem hefur verið kölluð skattaskjól. Iðnaðarráðherrann tekur fyrir þessar fullyrðingar fjölmiðlanna en sagði engu að síður af sér. Möguleiki er á því að boðað verði til kosninga í júní, og Flokkur fólksins hefur verið að bæta við sig fylgi.

Eins og flestar fréttaveitur hafa sagt frá var milljónum skjala lekið frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, en í skjölunum eru fleiri tugir stjórnmálamanna víða um heim bendlaðir við að eiga fjármagn í aflandsfélögum í skattaskjólum á borð við Tortóla eða Panama. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði til dæmis af sér embætti forsætisráðherra í kjölfar lekans.