*

fimmtudagur, 18. apríl 2019
Innlent 29. ágúst 2018 10:29

Iðnaður 23% af landsframleiðslu

Ný greining Samtaka Iðnaðarins kemst að þeirri niðurstöðu að iðnaður hér á landi standi undir tæpum 23% af landsframleiðslu.

Ritstjórn
Ingólfur Bender er aðalhagfræðingur Samtaka Iðnaðarins.
Aðsend mynd

Samkvæmt nýrri greiningu Samtaka Iðnaðarins skapaði iðnaður tæp 23% af vergri landsframleiðslu árið 2017, eða um 582 milljarða króna.

Greininni er skipt í þrjár undirgreinar: framleiðslu án fiskvinnslu, byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, og hugverkaiðnað, sem eru nokkuð svipaðar að umfangi.

Framleiðsla án fiskvinnslu er stærst, með 7,8% af landsframleiðslu, eða rétt tæpa 200 milljarða. Hlutdeild greinarinnar, sem sögð er samanstanda af nokkrum stórfyrirtækjum, og fjölmörgum minni fyrirtækjum, hefur þó farið dvínandi, en hún var 11% árið 2010. Efnahagssveiflur hér á landi eru sagðar meginástæðan fyrir þessu. „Þróunin er áhyggjuefni og undirstrikar mikilvægi þess að tryggja stöðugra starfsumhverfi til framtíðar fyrir íslenskan iðnað og hagkerfið allt.“

Byggingaiðnaður hefur hinsvevgar vaxið mikið síðustu ár og skapaði 7,7% landsframleiðslu í fyrra, en tæp 7% 2016 og aðeins 4,4% árið 2010. „Vöxt byggingar- og mannvirkjagerðar á undanförnum árum má að hluta rekja til aukningar í fjárfestingum í innviðum vegna þjónustu við vaxandi fjölda ferðamanna, m.a. fjárfestingar í gistirýmum og samgöngum. Þannig hafa auknar gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum haft mikil áhrif á hagkerfið í gegnum byggingariðnaðinn. Fjárfesting hefur þá tekið við sér í annarri starfsemi í hagkerfinu og nú undanfarið sérstaklega í íbúðafjárfestingu til að mæta vaxandi fólksfjölda. Kemur sú aukning í kjölfar mikillar ládeyðu á því sviði þar sem lengi var fjárfest langt undir þörf.“

Hlutdeild hugverkaiðnaðar nam 7,3% og hefur einnig vaxið töluvert, úr 5,8% árið 2010. Greinin er sögð bera merki þess mikla mannauðs sem í landsmönnum búi, en stór hluti hennar er í upplýsinga- og fjarskiptaiðnaði, sem er sögð hafa verið leiðandi í miklum samfélagsbreytingum, meðal annars því að tengja Ísland betur við umheiminn.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim