IFS Greining spáir 0,1% hækkun verðlags í mars frá fyrri mánuði. Gangi spá IFS eftir lækkar tólf mánaða verðbólga úr 1,9% niður í 1,7%. Þetta kemur fram í verðbólguspá IFS greiningu.

„Undanfarna þrjá mánuði hækkar verðlag um rúm 0,2% gangi spáin eftir sem er 1% verðbólga á ársgrundvelli,“ segir í spánni.

Tekið er fram að verð á fötum og skóm hækkaði ekki í febrúar eins og gert var ráð fyrir vegna útsöluloka en IFS reiknar með því að ástæðan sé styrking krónu og væntingar um aukna samkeppni. Greiningaraðilarnir gera þó ráð fyrir að sá liður hækki um 2% í mars en  gæti hækkað meira.

Hagstofa Íslands birtir verðbólgutölur þriðjudaginn 28. mars næstkomandi.

Fasteignaverð heldur áfram að hækka

Tekið er fram að húsnæðisliðurinn hefur haldið áfram að hækka skarpt undanfarið og samkvæmt verðmælingum IFS er útlit fyrir að reiknuð húsaleiga hækki um 1,5% milli mánaða í mars. Þá gerir IFS ráð fyrir að greidd húsaleiga hækki um 0,3% milli mánaða.

Húsnæðisliðurinn hækkar um 0,9% samkvæmt spá IFS. Matarkarfan lækkar um 0,1% en verð á gistingu og veitingum hækkar um 0,5% í mars frá fyrri mánuði.

Bráðabirgðarspá IFS

Bráðabirgðaspá fyrir næstu mánuði er eftirfarandi: Hækkar um 0,2% í apríl, hækkar um 0,3% í maí og um 0,2% í júní. Tólf mánaða verðbólga verður 1,6% í júní gangi spár IFS eftir.