Stjórn breska Íhaldsflokksins samþykkti á fundi sínum í dag að flokkurinn sem slíkur verði hlutlaus í væntanlegum kosningum um það hvort Bretland eigi áfram að vera meðlimur í Evrópusambandinu. David Cameron, forsætisráðherra og leiðtogi flokksins, hefur sagst hallast að því að kosningarnar verði haldnar í október á næsta ári, en þær gætu jafnvel verið haldnar fyrr.

Í frétt Bloomberg segir að Cameron muni sjálfur berjast fyrir áframhaldandi veru Bretlands í ESB í kosningunum og að hann hafi viljað að Íhaldsflokkurinn gerði slíkt hið sama. Þrýstingur af hálfu þeirra flokksmanna sem eru honum ósammála gerði það hins vegar að verkum að nú hefur verið ákveðið að flokkurinn sitji í raun hjá í kosningunum. Einstakir þingmenn og flokksmenn ráða svo sjálfir hvoru meginn borðsins þeir raðast í kosningabaráttunni.

Cameron hafði einnig reynt að koma í gegnum þingið breytingu á reglum um þátttöku ríkisstarfsmanna í kosningum, sem áttu að fela í sér að embættismenn hefðu mátt tjá sig með frjálslegri hætti um skoðanir sínar. Þessi tillaga hans var felld og munu því sömu reglur gilda um þessar kosningar og venjulegar þingkosningar hvað varðar yfirlýsingar embættismanna.