Nú hefur félagsmálaráðherra Kanada, Jean-Yves Duclos, sagst hafa áhuga á því að skoða hvort hægt væri að innleiða borgaralaun inn í kanadíska velferðarkerfið. Duclos er hluti af frjálslyndri ríkisstjórn Justin Trudeu sem komst í heimspressuna í nóvember á síðasta ári fyrir að segja að árið væri 2015.

Duclos hefur það að markmiði að draga úr fátækt í heimalandi sínu, en ljóst er að honum finnst borgaralaun í það minnsta geta verið möguleg lausn á fátækt í Kanada. Borgaralaun fela í sér að hver og einn ríkisborgari fái greidda fasta mánaðarlega upphæð, eins konar altryggingu fyrir framfærslu - sem borgarinn getur svo ákveðið sjálfur hvernig hann eyðir.

Launin yrðu þá ekki skert með tilliti til tekna eða aukin út frá því að aðilinn hafi engar tekjur - heldur eru launin föst og skilyrðislaus. Þetta gæfi t.d. fólki nánara svigrúm til þess að fara í nám eða stofna til eigin fyrirtækja. Þrátt fyrir þessa ágætu kosti hafa þessi borgaralaun helst í för með sér að þau yrðu mjög kostnaðarsöm og krefðust líklega aukinnar skattheimtu.

Borgaralaun hafa verið mikið til umræðu í heimsstjórnmálunum, en Finnland, Sviss og Holland hafa öll rætt um þau, kosið eða áætlað tillraunir með borgaralaun. Pírataflokkurinn á Íslandi hefur þá einnig tvisvar borið upp frumvörp varðandi borgaralaunin, eða skilyrðislausa grunnframfærslu, en þau hafa ekki hlotið mikinn stuðning á þingi enn sem komið er.