Jón Þór Ólason, lögmaður Karls Steingrímssonar, hefur sent frá sér yfirlýsingu í tengslum við umfjöllun fjölmiðla af skiptalokum þrotabús Eignamiðjunnar, sem var í eigu Karls. Birtist yfirlýsingin í Morgunblaðinu í dag.

Segir hann að fjölmiðlar hafi í umfjöllun sinni byggt á auglýsingu sem birtist í Lögbirtingarblaðinu þar sem fram komi að engar eignir hafi fundist í búinu og skiptum hafi verið lokið án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Þar kom einnig fram að lýstar kröfur í búið hafi numið 2,46 milljörðum króna.

Auglýsingin röng

Í yfirlýsingunni segir að það sé einfaldlega rangt sem fram komi í auglýsingunni í Lögbirtingarblaðinu um að engar eignir hafi fundist í þrotabúinu. Í búinu hafi meðal annars verið að finna fasteignir sem seldar hafi verið af hálfu þrotabúsins. Stærsta eintaka eignin hafi verið fasteign að Tryggvagötu 18 sem seld hafi verið af hálfu þrotabúsins í desember 2011 fyrir tæpan milljarð króna. Því liggi fyrir að þrotabúið hafi selt fasteignir fyrir vel á annan milljarð króna.

Íhugar réttarstöðu sína

Þá er í yfirlýsingunni fjallað um orð Ástráðar Haraldssonar hrl., skiptastjóra búsins, um að textinn sem birtur hafi verið í Lögbirtingarblaðinu um skiptalokin væri staðlaður og byggði á 155. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Segir Jón Þór að ekki verði séð hvernig unnt sé að komast að þeirri niðurstöðu að greinin geti átt við í þessu tilviki, þar sem hún eigi aðeins við þegar um eignalaus eða mjög eignalítil bú sé að ræða. Í yfirlýsingunni segir jafnframt:

„Þá er jafnframt haft eftir skiptastjóranum að það sé ekki hlutverk hans að gera grein fyrir því opinberlega hve mikið hafi fengist upp í hinar lýstu kröfur og tekur hann sérstaklega fram að honum sé hvorki skylt né heimilt að greina frá því opinberlega sem fer fram undir gjaldþrotaskiptum. Hér fer skiptastjórinn hins vegar með staðlausa stafi. Í 2. mgr. 162. gr. tilvitnaðra laga um gjaldþrotaskipti kemur það beinlínis fram að í auglýsingu í Lögbirtingarblaði skuli m.a. koma fram hvað greiddist upp í kröfur í einstökum flokkum og hverrar fjárhæðar þær kröfur hafi verið sem fengust að engu greiddar. Því liggur einfaldlega fyrir að skiptastjórinn hefur sent inn ranga yfirlýsingu um skiptalokin, sem er til þess fallin að skaða orðspor umbjóðanda míns í því viðkvæma viðskiptaumhverfi sem nú er til staðar, en umfjöllun fjölmiðla hefur byggt á hinni röngu auglýsingu skiptastjórans. Er umbjóðandi minn að íhuga réttarstöðu sína gagnvart skiptastjóranum í þessu ljósi.“