IKEA á Íslandi hefur ákveðið að lækka vöruverð í verslun sinni um 2,8% og skorar framkvæmdastjóri fyrirtækisins á verslunina í landinu að gera hið sama. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir í samtali við Morgunblaðið að þrennt ráði mestu um ákvörðunina. Í fyrsta lagi hafi íslenska krónan styrkst gagnvart evru sem geri innflutning hagstæðari. Í öðru lagi hafi niðurstaða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði verið töluvert hagstæðari en gert var ráð fyrir og í þriðja lagi séu umsvif í hagkerfinu að aukast gríðarlega.

Hann segir að þær aðstæður sem IKEA á Íslandi búi við séu síst af öllu einsdæmi. Þær efnahagslegu forsendur sem liggi að baki ákvörðun fyrirtækisins séu til staðar víðast hvar annars staðar í íslenskum fyrirtækjarekstri. Segir hann að fleiri ættu því að fylgja fordæmi.