Ásmundur Friðriksson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins segir Íslendinga aftarlega á merinni í markaðsmálum lambakjöts að því er Morgunblaðið greinir frá. Ásmundur mætti ásamt ýmsu forystufólki í landbúnaði og öðrum atvinnugreinum á fund um málið sem haldinn var um helgina á Hellu.

„Það þarf að brúa bilið á milli bænda og afurðarstöðvanna sem þeir reyndar eiga,“ segir Ásmundur sem virðist sem þreyta sé komin í samstarfið.

Ásmundur sagði að bændur þyrftu að taka sjávarútveginn til fyrirmyndar en þar færi enginn bátur á sjó án þess að vita hvað markaðurinn biður um. Jafnframt tók hann undir orð framsögumanna á fundinum um að bændur ættu að einbeita sér að innlenda markaðnum.

Stefnir að því að selja 150 þúsund skammta í ár

Annar þeirra var Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA sem sagði að fyrirtæki sitt hefði selt 84 þúsund skammta af lambakjöti í veitingastað sínum á síðasta ári en stefndi að því að selja 150 þúsund á þessu ári og reiknaði hann með að salan yrði 250 þúsund árið 2020.

Segir Þórarinn að IKEA hafi sýnt fram á að vel sé hægt að hagnast á því að selja lambakjöt, hvort tveggja til Íslendinga sem og til útlendinga. Telur hann að ef hægt væri að fá 10% ferðamanna til að prófa lambakjöt og ef þeir myndu líka það og fá sér 2-3 máltíðir í ferð sinni hingað til lands myndi öll umframframleiðsla lambakjöts hverfa ofan í ferðamennina og rúmlega það.

Lambakjöt ætti að vera á alþýðuverði

Hann sagði það sína skoðun að selja ætti lambakjöt sem alþýðumat á alþýðuverði en nú væri það of fjarlægt hinum almenna neytenda. Hvatti hann bændur til að krefjast þess að SS og önnur fyrirtæki í þeirra eigu sem og fyrirtæki sem þjónustu þá eins og N1 ynnu með þeim í að auka sölu á lambakjöti til ferðafólks.

„Ef ég fengi öllu að ráða myndi ég læsa Steinþór Skúlason frá SS, Ágúst Torfa Hauksson frá Norðlenska, Þórólf Gíslason frá KS og Eggert Kristófersson frá N1 saman inni í litlu herbergi,“ sagði Þórarinn „[O]g ekki hleypa þeim út fyrr en þeir væru komnir með raunhæf plön um að selja 4 milljónir skammta af lambaréttum hið minnsta á ári.“