*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 15. júlí 2012 13:15

Illugi: Framkoma Björns Vals til skammar fyrir þingið

Illugi Gunnarsson víkur sérstaklega að þingflokksformanni VG þegar rætt er um andrúmsloftið á þinginu. Saknar gömlu kaffistofunnar.

Gísli Freyr Valdórsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Í viðtali við Viðskiptablaðið víkur Illugi Gunnarsson að fyrra bragði að því, þegar rætt er um andrúmsloftið á þinginu, að nú séu nýleg dæmi þess að einstaka menn hafi brotið allar venjur og reglur í umgengni við aðra þingmenn. 

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er þess í stað birtur hér í heild sinni.

„Það má sérstaklega nefna Björn Val Gíslason [þingflokksformann VG] en framkoma hans í garð einstakra þingmanna er til skammar,“ segir Illugi beðinn um að rökstyðja fyrri fullyrðingu.

„Hann hefur til dæmis brigslað þingmanni Sjálfstæðisflokksins um að þiggja mútur, öðrum um vera á mála hjá erlendum aðilum og enn öðrum um að vera drukkinn í þingsal. Hann að vísu bað þann mann afsökunar en það þurfti að draga þá afsökunarbeiðni upp úr honum. Menn eiga að sýna pólitískum andstæðingum sínum virðingu og fara ekki fram með svona ofstopa. Menn gera auðvitað sjálfum sér mestan óleik með svona framkomu, en það dregur úr trúverðugleika þingsins þegar menn haga sér svona.“

Maður hefur heyrt á þeim sem áður sátu á þingi að menn hafi tekist harkalega á inn í þingsal en síðan farið fram og fengið sér kaffi – og hugsanlega eitthvað sterkara – og rætt þar daginn og veginn. Með öðrum orðum að menn tóku ekki átökin með sér út fyrir þingsalinn. Er þetta liðin tíð að þínu mati?

„Það er mjög persónubundið,“ segir Illugi.

„Það má í þessu samhengi minna á að reglurnar sem við höfum haft í þinginu um það hvernig þingmenn og ráðherrar ávarpa hvorn annan, eru ekki settar vegna einhverrar fortíðardýrkunar. Reglurnar eru settar til þess að ýta mönnum í þá átt að koma fram við hvorn annan af virðingu og tala til hvors annars af virðingu. Þess vegna ávarpa menn ekki þingmanninn beint og nota titlana háttvirtur þingmaður og hæstvirtur ráðherra til að aga hugsunina í þessa átt, að sýna mönnum virðingu og sýna sjónarmiðum andstæðinganna virðingu. Það hafa komið þingmenn sem hafa mikið kvartað undan því að þurfa að gangast undir þessar reglur. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að halda þessum reglum af fyrrnefndum ástæðum.“

„Það reyndar til umhugsunar að eftir breytingar á húsnæði Alþingis er það þannig á nýju kaffistofunni að stjórnarliðarnir sitja saman og stjórnarandstæðingarnir sitja saman. Þetta blandast mjög sjaldan, nema kannski helst á kvöldfundum,“ segir Illugi.

„Að þessu leytinu sakna ég gömlu kaffistofunnar, það var auðvitað hætt að nota hana þegar ég kom á þing en ég man eftir henni frá þeim tíma þegar ég var aðstoðarmaður ráðherra.“

 

Nánar er rætt við Illuga í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar tjáir Illugi sig einnig um andrúmsloftið á þinginu og hvað megi betur fara þar, efnahags- og gengismálin, stöðu Sjálfstæðisflokksins og formanns flokksins. Auk þess svarar hann spurningum um setu sína í stjórn Sjóðs 9 og pólitískar afleiðingar þess að hafa setið í stjórn sjóðsins.