Illugi Gunnarsson, stjórnarmaður í Glitni sjóðum, lagði á það mikla áherslu á fundi með Lárusi Welding og Tryggva Þór Herbertssyni að Glitnir myndi kaupa skuldabréf Stoða/FL Group út úr peningamarkaðssjóði bankans daginn eftir að hann var þjóðnýttur. Bréfin voru í kjölfarið keypt á 10,7 milljarða króna.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem var gerð opinber á mánudag.

Geir og Árni settu sig ekki upp á móti uppkaupunum

Eftir að ríkið tilkynnti að það ætlaði sér að taka 75% eignarhlut í Glitni var ljóst að Stoðir/FL Group, stærsti eigandi félagsins, myndi fara í þrot. Þess utan hafði verið ljóst um nokkurn tíma að stærsti eigandi Stoða/FL Group, Baugur, stæði afar illa. Þetta skapaði gríðarleg vandamál fyrir tvo sjóði í eigu rekstarfélags Glitnis, Sjóð 1 og Sjóð 9, enda var að jafnaða yfir 50% af heildareign sjóðanna bréf frá þessum tveimur útgefendum.

Ákveðið var á stjórnarfundi í Glitni að bankinn myndi kaupa öll skuldabréf útgefin af Stoðum/FL Group úr sjóðum bankans. Lárus Welding, þáverandi forstjóri bankans, segir frá því í skýrslunni að hann hafi fundað með Geir H. Haarde og Árna Mathiesen um þessi uppkaup, enda var ríkið við það að verða eigandi að bankanum á þessum tíma.

Hann segir að í símtali við Geir „hefði komið fram að Geir teldi þetta erfitt mál en hann hefði gefið í skyn: „jú, ætli það verði ekki að gera þetta.“ Þá hefði Árni ekki sett sig upp á móti málinu. Bréfin voru keypt út á 10,7 milljarða króna.

Illugi lagði mikla áherslu á að málið yrði leyst, samþykkt af stjórninni og bréfin svo keypt

Lárus segir ennfremur að „Tryggvi Þór [Herbertsson] var búinn að sitja líka fund með okkur um daginn og Illuga [Gunnarssyni] stjórnarmanni í þessu í sjóðunum. Illugi lagði mikla áherslu á að þetta yrði leyst og þetta er samþykkt af stjórninni og svo gert.“

Geir sagði fyrir nefndinni að hann hafi talið Lárus vera að kynna málið fyrir sér og Árna, ekki leita eftir samþykki eða neitun, og til að kanna hvort þeir hefðu athugasemdir við þá leið sem var farin. Geir viðurkenndi þó að „Ef við hefðum sagt: Nei, við viljum þetta alls ekki, þá býst ég við að þeir hefðu hugsað sig tvisvar um áður.“

Nokkrum dögum síðar létu stjórnendur Glitnis kaupa hlutdeildarskírteini í sjóðnum fyrir 33 milljarða króna til að mæta útflæði. Þremur dögum eftir þau kaup tók skilanefnd yfir Glitni.