*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Fjölmiðlapistlar 11. maí 2015 15:47

Illugi og illhugar

Fjölmiðlarýnir fjallar um fréttaflutning af tengslum menntamálaráðherra við Orku Energy.

Andrés Magnússon
Birgir Ísl. Gunnarsson

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur verið nokkuð í fréttum liðna daga vegna tengsla hans við fyrirtækið Orku Energy. Áður en lengra er haldið er fjölmiðlarýni ljúft og skylt að upplýsa, að hann er gamall skólabróðir og vinur Illuga.

Rúmsins vegna verður ekki farið í forsögu málsins, en það snýst fyrst og fremst um það hvort tengsl Illuga við fyrirtækið og aðaleiganda þess hafi orðið til þess að hann hafi hyglað þvi í tiltekinni vinnuheimsókn ráðherrans til Kína.

Nú hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að ráðherrann hafi hyglað fyrirtækinu, en altítt er að fulltrúar íslenskra fyrirtækja eigi aðkomu að heimsóknum af þessu tagi og stundum er það jafnvel höfuðtilgangurinn. Þá er reglan að þeir megi koma sem nenna, enda standa fyrirtækin sjálf straum af kostnaðinum. Að því leytinu eru því vart mikil efni í málinu. Samt sem áður hefur það haldið áfram og fremur undið upp á sig en hitt. Það er af þeim ástæðum og ýmsum öðrum býsna athyglisvert fyrir áhugamenn um fjölmiðlum.

* * *

Nú er skrýtið að þetta mál virðist fyrst hafa kviknað á vef Hringbrautar í mars, nokkru fyrir umrædda Kínaferð. Hringbraut er fjölmiðill áhugafólks um Evrópusambandsaðild og Illuga Gunnarsson, því þar hefur birst hreint ótrúlegur fjöldi frétta og nafnlausra athugasemda um ráðherrann á undanförnum mánuðum, svo óhætt er að tala um þráhyggju. Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, er ritstjóri Hringbrautar.

Það var þó ekki fyrr en í apríl sem enn ein frétt Hringbrautar varð öðrum miðlum tilefni til þess að fjalla um málið. Sá áhugi dó þó fljótt úr, nema helst hjá Stundinni, sem hélt áfram að grafast fyrir um tengsl Illuga við fyrirtækið.

Um liðna helgi skýrði Illugi svo frá viðskiptum sínum við stjórnarformann Orka Energy vegna íbúðar sinnar, sem hann var við að missa eftir hrun, og enn glæddist áhuginn á málinu. Þarna er náttúrlega verið að ræða um einkamál Illuga, sem er illskiljanlegt því enginn hefur bent á neitt sem ráðherrann hafi átt að gera fyrir Orka Energy eða getað gert fyrir það, umfram það sem skyldan býður honum og forstöðumaður Stjórnsýslustofnar hefur reyndar bent á í viðtali við Ríkisútvarpið.

Hið skrýtna var þó það, að þegar eftir viðtalið á sunnudeginum höfðu tveir miðlar, Stundin og Vísir, allt í einu undir höndum ársskýrslur félags um íbúðina og afrit af afsalinu, sem þeir höfðu þó ekki haft áður. Blasir ekki við að einhver er að fóðra þá á gögnum? Og meðan enginn getur bent á neitt misjafnt í því samhengi, er þá ekki rétt að spyrjast fyrir um markmið þessa með gögnin? Í þessa sögu vantar fleira.

* * *

Það klikkaðasta var þó frásögnin af undirbúningi þessa viðtals Illuga við RÚV, en þar mun aðstoðarmaður ráðherrans hafa sagt við Ragnhildi Thorlacius fréttamann eitthvað á þá leið að þau ráðherrann vildu tjá sig um þetta í „útvarpinu okkar“. Aðstoðarmaðurinn segir að hún hafi verið að gantast með slagorð RÚV, Ragnhildur segir að hún hafi skilið einhverja undiröldu í orðunum, en menningarmálaráðherra fer með eignarhald Ríkisútvarpsins svona opinberlega. Ragnhildur kveðst hafa maldað í móinn og sagt „við erum í eigu þjóðarinnar“. (Í alvöru!)

Nú má heita furðulegt að fréttamaðurinn sé svo viðkvæmt blóm að hann hafi farið af hjörunum við þetta. Jafnvel þó svo að aðstoðarmaðurinn hefði meint þetta á einhvern svakalega meinfýsinn hátt og ha ha ha… þá hvað? Almennilegur fréttamaður tekur ekkert mark á svoleiðis rausi. Og ef Ragnhildur hefði í alvöru trúað því að þarna byggi eitthvað undir, þá hefði hún vitaskuld átt að hafa orð á því við fréttastjóra, sem aftur hefði talað við útvarpsstjóra, viðtalið hefði verið skotið niður og stór frétt gerð úr þessu í fréttum RÚV.

Ekkert af þessu gerðist, heldur hafði Ragnhildur samband við Fréttablaðið, sem gerði forsíðuhlemm og annan hlemm inni í blaði um þetta innanhúsmál RÚV, (sem er raunar nokkurt afrek miðað við hversu rýrt efnið var). Reglan er sú að fjölmiðlar leysa sín innanhúsmál innanhúss og það trúnaðarrof Ragnhildar hlýtur að vera litið alvarlegum augum í Efstaleiti, en til þess að gera illt verra var hún að upplýsa um hvernig viðtöl væru samningsatriði hjá fréttastofunni. Og það að Fréttablaðið hafi gert svo mikið úr málinu bendir til þess að yfirritstjórinn þurfi að ræða við fréttastjórann um fréttamat og dómgreind. Nema náttúrlega það ríði svo mikið á að halda Illuga við efnið og láta hann hafa fyrir því að neita dylgjunum, sem þó eru aldrei botnaðar.

Stikkorð: Fjölmiðlarýni
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim