Viðskiptablaðið leitaði til nokkurra einstaklinga nú þegar líður að stærsta sprengjukvöldi ársins og kannaði hug þeirra til flugelda. „Á gamlárskvöld er ég úti að sprengja flugeld, í eintölu,” segir Illugi Jökulsson rithöfundur.

En hvers vegna flugeld í eintölu? „Ætli þetta sé ekki sambland af eðlislægri hógværð og rótgróinni nísku? Einhvers staðar djúpt í innstu myrkviðum sálarinnar leynist að vísu eldglæringapúki sem hefur tekið af mér loforð um að einhvern tíma áður en ég dey muni ég kaupa mér fjórar stærstu flugeldakökurnar og setja þær af stað allar í einu á túninu fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík á miðnætti. En ég stórefast um að ég muni tíma því.”