„Ég er í fæðingarorlofi fyrst og fremst og að njóta samvista við nýfæddan son minn og venjast tilhugsuninni að eiga nú tvö börn,“ segir Ilmur Kristjánsdóttir leikkona um hvað hún sé að gera þessa dagana en hún eignaðist lítinn dreng á nýársdag. Hún er líka að hefja undirbúning fyrir borgarstjórnarkosningar í vor þar sem hún er í þriðja sæti fyrir Bjarta framtíð.

Ilmur er tilnefnd til Edduverðlaunanna fyrir leik sinn í Ástríði 2. Þættirnir hafa hlotið góðar viðtökur í gegnum árin en hvernig skýrir Ilmur vinsældirnar? „Hef enga sérstaka skýringu á því aðra en að það sem er gert af hlýhug og velvilja vekur yfirleitt hlýhug og velvilja. Íslendingar hafa mjög gaman af íslensku leiknu efni og það er að þroskast og þróast. Þess vegna er líka mjög mikilvægt að styrkir til þess að framleiða íslenskt leikið efni séu ekki skornirniður.“

Spurð hvert sé eftirminnilegasta hlutverkið til þessa segir hún erfitt að gera upp á milli þeirra. „Það kann að hljóma klisjulega en öll hlutverk sem ég hef leikið í leikhúsinu hafa haft einhverja þýðingu fyrir mig en ég get sérstaklega nefnt Ausu Steinberg í samnefndu leikriti, Sölku Völku í samnefndu leikriti, Línu Langsokk í samnefndu leikriti og Klöru í Fólkinu í kjallaranum,“ segir Ilmur.

Og draumahlutverkið? „Draumahlutverkið er einhver gömul kelling í breskri bíómynd eftir Mike Leigh. Ég er að bíða eftir að ná réttum aldri.“

Nánar er rætt við Ilmi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .