Lausafjárstaða Wow air verður jákvæð um níu milljónir dollara (1,1 milljarð króna) um mitt næsta ár gangi áætlanir forsvarsmanna Wow air eftir. Í dag er lausafjárstaðan neikvæð um 11 milljónir dollara eða ríflega 1,3 milljarða króna. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.

Wow air sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem staðfest var að kröfuhafar hefðu samþykkt að breyta skuldum í hlutafé. Sagði Skúli Mogensen í viðtali á Vísi að þessar skuldir hefðu numið 12 milljörðum króna og að eftir breytinguna hefðu vaxtaberandi skuldir félagsins lækkað um 80 til 80%.

Nú vinna Arctica Finance og Arion banka að því að safna auknu hlutafé til að fjármagna rekstur félagsins, en miðað hefur verið við að safna um fimm milljörðum króna fyrir 51% hlut í Wow air . Skúli sagði í gær að viðræður standa yfir við innlenda og erlendra fjárfesta og í morgun greindi Fréttablaðið frá því að viðræður væru hafnar á ný við Indigo Partners . Einungis sex dagar eru síðan það Indigo Partners sleit viðræðum við Wow air og þann sama dag hófust samningaviðræður við Icelandair Group í samráði við stjórnvöld. Þeim viðræðum var slitið á sunnudaginn og nú er Indigo Partners sem sagt aftur komið inn í myndina.