Hið skuldum hlaðna indverska flugfélag Jet Airways India Ltd., stærsta hefðbundna flugfélag landsins hefur selt rúmlega helmings hlut í félaginu á 1 indverska rupee, sem nemur rétt rúmlega 1 senti Bandaríkjadals, eða 1,2 krónum.

Er um að ræða lið í takmarkaðri gjaldþrotameðferð fyrirtækisins sem hefur verið eitt þriggja stærstu flugfélaga landsins síðan einkaréttur ríkisins á flugrekstri var afnuminn á 10. áratugnum.

Heildarskuldir fyrirtækisins nema nú um 72,99 milljörðum rupee, eða sem samsvarar 120 milljörðum íslenskra króna, og greiddi það ekki afborganir af þeim 31. desember síðastliðinn, auk þess að hafa tafið launagreiðslur og leigugreiðslur.

Síðustu 11 ár hefur félagið verið í taprekstri öll árin nema tvö, eftir að hafa átt erfitt með að bregðast við tilkomu lággjaldaflugfélaga inn á markaðinn, en einnig hefur allt að 30% skattlagning á eldsneyti í héruðum landsins haft áhrif á reksturinn.

Verður kosið um aðgerðina 24. febrúar næstkomandi, en hún er leidd af Ríkisbanka Indlands, en hafa verður í huga að vegna 23 þúsund starfa hjá félaginu er það pólitískt viðkvæmt að það sé látið fara á hausinn í aðdraganda kosninga í landinu að því er Bloomberg greinir frá.

Aðgerðin felst í því að félagið gefi út 114 milljón hlutabréf sem þá munu samsvara 50,1% bréfa í félaginu, en selji þau á 1 rupee, sem er gjaldmiðill Indlands. Félagið þarf þó hins vegar 85 milljarða rupee til að komast aftur á réttan kjöl.