*

föstudagur, 20. október 2017
Erlent 8. ágúst 2012 13:29

ING vinnur að því að selja eignir og stækka sjóði

Hollenski risabankinn kom ekkert sérstaklega vel undan bankahruninu. Bankinn eignaðist netreikninga Kaupþings í Bretlandi.

Ritstjórn

Hollenski risabankinn ING hagnaðist um 1,17 milljarða evra, jafnvirði 173 milljarða króna, á öðrum ársfjórðungi. Þetta er 23% samdráttur á milli ára. Það sem helst setti strik í afkomu bankans var virðisrýrnun útlána bankans á Spáni, tap á fjárfestingum og afskriftir. Þetta er verri afkoma en búist var við.

Bankinn keypti netbankarekstur Kaupþings í Bretlandi, Kaupthing Edge, eftir að Kaupthing Singer & Friedlander, banki Kaupþings í Bretlandi, var settur í þrot.

ING hefur það sem af er ári tapað 178 milljónum evra á spænskum ríkisskuldabréfum og álíka eignum skuldsettra evruríkja. Þá bætir ekki úr skák að ING skuldar hollenska ríkinu þrjá milljarða evra sem það lagði bankanum til í bankahruninu haustið 2008. Þá hafa stjórnendur bankans sömuleiðis verið skikkaðir til að skilja bankarekstur frá tryggingarekstrinum. 

Bankinn hefur glímt við rekstrarvanda frá því fjármálakreppan reið yfir haustið 2008 og unnið að því að selja frá sér eignir. Þar á meðal eru netbankar undir vörumerkinu ING Direct í Suður-Kóreu. Stefnt er að því að selja netbankana í Bretlandi og Kanada. Skráningu tryggingahluta félagsins á hlutabréfamarkað hefur hins vegar verið slegið á frest. 

Stikkorð: ING ING Direct