Formenn flokkanna hafa verið að mæta einn af öðrum til fundar við forseta Íslands á Bessastaði í morgun, eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun, en það vakti athygli að þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins mætti klukkan 14 í dag, þá sat Inga Snæland formaður Flokks fólksins í bílnum með honum.

Hún á þó ekki fund með forsetanum fyrr en klukkan 16:00, en samkvæmt Vísi segir að hún hafi verið mætt á mikilvægan fund klukkan 13:00 í dag, klukkutíma fyrir fund Sigmundar Davíðs við forsetann.

Miðflokkurinn fékk sjö manns kjörna á Alþingi, en Flokkur fólksins fékk fjóra. Ef flokkarnir tveir, sem báðir eru nýir á þing og hafa að mörgu leiti róið á svipuð mið leiddu saman hesta sína væru þeir jafnstórir þingflokki Vinstri grænna, eða 11 manns.

Ef Framsókn kæmi svo til liðs við þessa miðjuhreyfingu væru þeir svo með langstærsta þingflokkinn eða 19 manns, en þingflokkur Sjálfstæðisflokksins endaði í 16 þingsætum. Samanlagt gætu þessir fjórir flokkar sem spanna frá miðju til hægri náð meirihluta á Alþingi með 35 þingsæti af 63.