Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir og Heiðrún Björk Gísladóttir hafa verið ráðnar sem verkefnastjórar á samkeppnishæfnisvið Samtaka atvinnulífsins og munu þær báðar hefja störf um áramótin. Þá hefur Hanna Birna Björnsdóttir verið ráðin sem bókari á rekstrarsvið SA og hefur hún hafið störf.

Ingibjörg mun meðal annars samhæfa menntamálaáherslur SA og aðildarsamtaka þeirra auk annarra verkefna. Hún er sviðsstjóri reksturs, mennta- og mannauðsmála Samtaka iðnaðarins þar sem hún hefur starfað síðan 2016. Ingibjörg var framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar 2015-2016, hún stýrði undirbúningi og opnun Menningarhússins Hofs og var framkvæmdastjóri þess frá 2010 til ársloka 2014, markaðsstjóri KEA 2005-2008 og framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar 2003-2005. Hún er með MSc-gráðu í stjórnun og BSc-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri. Ingibjörg er fimm barna móðir og er gift Magnúsi Geir Þórðarsyni.

Heiðrún varð héraðsdómslögmaður árið 2015, lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2012 og BA prófi í sömu grein frá sama skóla árið 2010. Hún hefur áður starfað hjá Lögmönnum Laugardal, Lögfræðistofu Reykjavikur, Íslandsbanka og Umboðsmanni skuldara. Heiðrún á tvær dætur og er í sambúð með Grétari Dór Sigurðssyni.

Hanna Birna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og er með mikla reynslu af bókhaldi og fjármálum. Hanna Birna var m.a. fjármálastjóri Bílaleigunnar Geysis 2016-2018 og hefur auk þess starfað hjá Innnes og Olís. Hanna Birna er gift og á tvö börn.