Félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur verða samanlagt þriðji stærsti hluthafinn í Fjarskiptum hf. sem er móðurfélag Vodafone ef að kaup Fjarskipta á öllum eignum 365 miðla að undanskildu Fréttablaðinu, ná fram að ganga. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Félögin Moon Capital S.á.r.L og ML ehf. sem eru í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, sem áttu alls 74% hlut í 365 miðlum, munu, ef kaupin ganga í gegn, eiga 8,1% hlut í Vodafone ef tekið er mið af útistandandi hluti í félaginu. Kaup Fjarskipta á 365 voru að hluta til greidd með hlutum í Fjarskiptum að andvirði 1,7 milljarða króna eins og áður hefur komið fram.

Ef kaupin ganga í gegn þá verður Gildi lífeyrissjóður þó enn stærsti hluthafinn með ríflega 12,2% hlut í Fjarskiptum. Lífeyrissjóður verslunarmanna verður áfram annar stærsti hluthafinn með 10,9% hlut.

Samkeppniseftirlitið kemur til með að taka sér 110 daga til að skoða málið, að því er kom fram á fundi um kaupin í gær eða ríflega þrjá og hálfan mánuð.