Ingibjörg Pálmadóttir hefur eignast 0,94% hlut í Högum, félaginu sem hún og eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson og fjölskylda hans voru aðaleigendur að. Á hún hlutinn í gegnum nýstofnað fjárfestingarfélag SM Investments ehf.

Faðir Jóns Ásgeirs, Jóhannes Jónsson stofnaði Bónus og faðir Ingibjargar, Pálmi Jónsson, stofnaði Hagkaup, en báðar verslunarkeðjurnar tilheyra Högum. Fyrir átti systir Ingibjargar, Lilja Pálmadóttir, 0,33% hlut í Högum.

Þetta kemur fram í umfjöllun DV um málið, en Ingibjörg vildi ekki tjá sig um kaupin í samtali við blaðið.

Misstu félagið árið 2009

Fjölskylda Jóns Ásgeirs missti félagið úr sínum höndum árið 2009 þegar forveri Arion banka yfirtók eignarhaldsfélag þeirra sem hét 1998, en það átti 95,7% hlut í Högum.

Í kjölfar þess að bankinn tók ekki tilboði Jóhannesar um að endurfjármagna 30 milljarða króna skuld eignarhaldsfélagsins var félagið selt og síðan sett á markað.

Í dag eru lífeyrissjóðir stærstu eigendur félagsins, með yfir 50% eignarhlut, en 44% hlutur í félaginu var seldur til innlendra kjölfestufjárfesta og síðan 30% hlutur seldur í almennu hlutafjárútboði.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um er fjárhagsstaða félagsins sterk og það hefur nýlega fest kaup á lyfjakeðjunni Lyfju.