Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, hækkaði um 18% í launum á síðasta ári. Samkvæmt ársskýrslu Íslandspósts fyrir árið 2017 námu árslaun Ingimundar 20 milljónum króna, eða um 1,7 milljónum á mánuði, samanborið við 17 milljónir árið áður.

Alls hækkuðu laun og hlunnindi stjórnar og æðstu stjórnenda Íslandspósts um 8 milljónir króna milli ára, úr 111 milljónum í 119 milljónir. Laun til stjórnarmanna námu 10 milljónum en voru 9 milljónir árið áður. Laun stjórnarformanns eru tvöföld laun stjórnarmanns.

Launahækkun stjórnar og æðstu stjórnenda hjá Póstinum kemur á sama tíma og stjórn Íslandspósts tilkynnti síðastliðið haust að rekstrarafkoma fyrirtækisins hafi verið „óásættanleg“ á síð­ustu árum.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hyggst Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kalla eftir skýringum frá stjórn Landsvirkjunar um ríflegar launahækkanir hjá stjórnarmönnum og forstjóra félagsins í krónum talið árið 2017. Alls hækkuðu laun stjórnar og forstjóra um 45% í krónum talið, en laun forstjóra Landsvirkjunar, hækkuðu um 32%.

Í samtali við RÚV sagði Bjarni jafnframt að launahækkanirnar væru ekki í takt við það sem er að gerast í kjaramálum og að ríkisfyrirtæki eigi ekki að vera leiðandi í launaþróun. Þess má geta situr Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna, í stjórn Íslandspósts sem varaformaður og hefur átt þar sæti frá því í mars 2014.

Ingimundur er einnig stjórnarformaður Isavia. Samkeppniseftirlitið hóf nýverið rannsókn á hárri gjaldtöku Isavia af hópferðabílum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli.