Fjármálaráðgjafinn Ingólfur H. Ingólfsson segir ekki rétt að félag hans, Fjármál heimilanna, skuldi 110 milljónir króna eins og greint var frá í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Í blaðinu var miðað við stöðu félagsins í lok árs 2010. Ingólfur bendir á að síðan þá hafi margt gerst. Gengistryggð lán félagsins hafi verið leiðrétt, sparnaður verið nýttur til að greiða lán niður auk þess sem bankinn hafi tekið veð í húsi hans og konu hans.

Um leiðréttingu á lánum Fjármála heimilanna segir Ingólfur:

„Lánið var gengistryggt og því kom til leiðréttingar á því eftir dóm Hæstaréttar auk þess sem ég greiddi inn á það af sparnaði mínum til þess að lækka höfuðstólinn niður í 26,2 milljónir króna. Bankinn fékk hins vegar þinglýst vísitölubundið tryggingarbréf í húsi okkar hjóna fyrir 34 milljónir króna svo að hann ætti að vera vel tryggður.“

Eins og fram hefur komið tók Ingólfur rúmlega 30 milljóna króna lán í nafni Fjármála heimilanna árið 2007 en tilgangur þess er að setja á laggirnar nýjan banka á vegum Sparifélagsins. Bankinn er að þýskri fyrirmynd. Hann á m.a. að fylgja samfélagslega ábyrgri útlánastefnu og hvetja viðskiptavini til sparnaðar og eignauppbyggingar.

Ingólfur sagði í samtali við blaðið allt þurfa að ganga upp.

Í síðasta birta ársreikningi Fjármála heimilanna kemur fram að langtímaskuldir félagsins í erlendum gjaldmiðlum hafi í lok árs 2010 numið rétt rúmum 86 milljónum króna. Skuldir í íslenskum krónum hafi numið tæpum 1,4 milljónum króna. Þá námu skammtímaskuldir, sem nefndar eru bankareikningslán, einni milljón króna. Aðrar skammtímaskuldir námu 7,8 milljónum. Þessu samkvæmt námu heildarskuldir Fjármála heimilanna samtals 109,8 milljónum króna í lok árs 2010 samanborið við 40,3 milljóna króna skuldir í lok árs 2007. Til samanburðar námu skuldir félagsins tæpum 2,9 milljónum króna í lok árs 2006.