„Ung vinstri græn standa fyrir sölu á barmmerkjum sem sýnir ágætlega hvar hugmyndafræðilegi bakgrunnur félagsins liggur,“ segir Ingvar Smári Birgisson, formaður Heimdallar, í stöðuuppfærslu á Fasbók .

Þar vísar hann til tveggja barmmerkja sem finna má á vefsíðu félagsins. Á fyrra barmmerkinu er að finna mynd af Katrínu Jakobsdóttur, formanns flokksins, þar sem hún er sett í búning byltingarleiðtogans Che Guevara, sem leiddi byltinguna á Kúbu á sjötta áratugnum.

Ingvar segir Che hafa fyrirskipað morð á þúsundum manna á Kúbu.

„Stundum, þegar vel lá á Che, þá persónulega skaut hann fólk í höfuðið. Leiðtogi til að líkjast,“ segir Ingvar Smári.

Lætur Hitler og Stalín líta vel út í samanburðinum

Ingvar segir hins vegar að hitt barmmerkið sé öllu brenglaðra.

„Þar er maður, sem lætur Hitler og Stalín líta vel út í samanburði þegar það kemur að dauðsföllum, settur í búning kattar og merki UVG skellt á botninn. „Meow Zedong“ kalla þau barmmerkið sem er tilvísun í fræga mynd af Mao Zedong, leiðtoga kommúnísku byltingarinnar í Kína.“

Ingvar segir að þær 45 milljónir Kínverja sem dóu úr hungri „í stóra stökkinu fram á við“, sem efnahagsáætlun Maós var kölluð, geti eflaust hlegið að þessari krúttlegu aðdáun UVG að manninum.