*

þriðjudagur, 20. nóvember 2018
Innlent 28. september 2015 07:44

Ingvi Hrafn: Myndi slökkva á öllum litlu stöðvunum

Frumvarp liggur fyrir Alþingi sem torvelda myndi rekstur sjónvarpsstöðva verði það að lögum.

Ritstjórn
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Haraldur Guðjónsson

„Ég myndi gjarnan vilja gera þetta en þetta myndi bara slökkva á ÍNN. Og ég fullyrði á öllum litlu stöðvunum,“ segir Ingvi Hrafn Jónsson, eigandi sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN, í samtali við Morgunblaðið.

Þar er greint frá því nú liggi frumvarp fyrir Alþingi sem mun skylda fjölmiðlaveitur til að texta allt íslenskt myndefni verði það að lögum. Þetta kunni að kippa grundvellinum undan rekstri lítilla sjónvarpsstöðva. „Ekki nema þá að það myndi fylgja frumvarpinu að stofnaður yrði sérstakur sjóður sem kostaði þetta. Kostnaðurinn við textunina er nefnilega alveg gríðarlegur,“ segir Ingvi Hrafn.

Markmið frumvarpsins er að gera sjónvarpsáhorfendum sem eru heyrnarlausir eða heyrnarskertir kleift að njóta sjónvarpsefnis á íslensku. Fyrsti flutningsmaður þess er Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, en meðflutningsmenn koma frá Sjálfstæðisflokki, Framsókn, Samfylkingu og Vinstri grænum.