Þórunn Guðmundsdóttir formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands segir að innanhúsrannsókn standi yfir hvort símtalið milli Geirs H. Haarde og Davíð Oddssonar sem birt var í vikunni, hafi lekið út úr bankanum. Af þeirri ástæðu komu starfsmenn bankans á fund bankaráðs sem haldinn var í gær að því er RÚV greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá hefur símtal milli þáverandi Forsætisráðherra og Seðlabankastjóra um lánveitingu bankans til Kaupþingsbanka í aðdraganda bankahrunsins verið birt, en þar kom fram að vegna hættu á að lánið fengist ekki endurgreitt þyrftu veð bankans að vera í lagi.

Þórunn segir að starfsmenn bankans hafi strax farið að rannsaka og skoða málið og þeir hafi komið á fundinn til að gera bankaráði grein fyrir stöðunni.

Það er ekki sjálfgefið að þetta hafi komið úr bankanum, það er bara verið að skoða það og rekja innan bankans,“ segir Þórunn sem einnig var spurð út í hvort frekari upplýsingar en símtalið hafi lekið. „Svo veit maður það ekki. Það gæti verið fljótandi þarna úti eitthvert gríðarlegt upplýsingamagn úr bankanum, við bara vitum það ekki.“