Seint í gærkveldi skrifuðu Flugfreyjur hjá Flugfélagi Íslands undir nýjan kjarasamning, en fundur í kjaradeilunni stóð nánast samfleytt frá klukkan 13:00 í gær.

Hefur því verkfalli flugfreyja hjá félaginu verið aflýst, en það átti að standa í þrjá sólarhringa sem hefði haft áhrif á ferðir um fimmtán hundruð farþega, að því er fram kemur í frétt RÚV .

Gefur ekki upp hvort samræmist SALEK

Flugfreyjur félagsins hafa verið samningslausar síðan um áramótin 2015 til 2016, eða í rúmt ár, en síðustu tveir samningar sem hafa náðst við þær hafa verið felldir í atkvæðagreiðslu.

Nýr samningur gildir út næsta ár, en Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, vill ekki gefa upp hvort samningurinn samræmist SALEK samkomulaginu.

Formaður samninganefndar Flugfreyjufélagsins, Sturla Bragason, segir að með samningnum hafi fengist viðurkenning á breytingum sem ný flugvél í flugþota Flugfélagsins hafi kallað á.