Heildsalan Innnes ehf. hefur kært fyrrverandi stjórnarmenn Lifandi markaðar fyrir fjársvik og blekkingar. Lifandi markaður á að hafa lagt inn pantanir hjá Innesi eftir að fyrirtækið hafði óskað eftir gjaldþrotaskiptum. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.

Stjórnendur Lifandi markaðar óskuðu eftir gjaldþrotaskiptum 26. júni sl. og var fyrirtækið úrskurðað gjaldþrota 4. júlí. Í millitíðinni samdi fyrirtækið við Innes um greiðslur á skuldum. Í samtali við Fréttablaðið segir Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness ehf. að stjórnendur Lifandi markaðar hafi lofað að eldri skuld yrði greidd niður á næstu þremur vikum og því hafi verið samið, og pantanir afgreiddar, skömmu áður en fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota.

Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að Lifandi markaður hafi átt í viðskiptum við fjölmarga smærri birgja sem hafi átt mikið undir viðskiptunum. Haft er eftir Karen Emilíu Jónsdóttur, eiganda Kaja organic ehf., að gjaldþrotið sé stór skuld fyrir lítið fyrirtæki sem sé rétt að byrja. Samanlögð skuld Lifandi markaðar við fyrirtækið nemur  um 900 þúsund krónum.