Á morgun 5. mars 2019 munu taka gildi breyting á lögum um gjaldeyrismál og breyting á meðferð krónueigna sem háð eru sérstökum takmörkunum, sem þýðir að með samþykkt ráðherra á breytingum á reglugerð verða innflæðishöftin afnumin, og tekur hún þá gildi miðvikudaginn 6. mars næstkomandi.

Felur breytingin í sér að bindingarhlutfall nýs innstreymis reiðufjár, sem verið hefur 20% síðan það var lækkað í nóvember síðastliðnum úr 40%, verður framvegis 0%.

Á vef ráðuneytisins er sagt að fyrirhuguð lækkun bindingarhlutfallinu marki kaflaskil í beitingu hinnar sérstöku bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað og í hávaxtainnstæður sem var sett á í júní 2016. Markmið hennar er að tempra og hafa áhrif á samsetningu innstreymis erlends fjármagns á innlendan skuldabréfamarkað og hávaxtainnstæður og að styrkja miðlunarferli peningastefnunnar.

Eins og áður segir var indingarhlutfallið lækkað úr 40% í 20% í byrjun nóvember 2018. Nú hafa myndast aðstæður til að lækka bindingarhlutfallið niður í 0% þar sem líkur á umtalsverðu innflæði sem leiddi til ofriss krónunnar og alvarlegrar truflunar í miðlunarferli peningastefnunnar hafa minnkað mikið, a.m.k. um sinn.

Nú eru fjármagnsstraumar til og frá landinu í betra jafnvægi en var þegar hin sérstaka bindiskylda var upphaflega sett á. Að undanförnu hefur verið útflæði á erlendum nýfjárfestingum í skuldabréfum. Er vakin athygli á því að framangreindar breytingar munu leiða til þess að fjármunir sem bundnir hafa verið á bindingarreikningum verða því lausir til ráðstöfunar, á sama hátt og þegar bindingarhlutfall var lækkað úr 40% í 20% í nóvember sl.

Jafnframt er vakin athygli á því að verði bindingarhlutfall hækkað í framtíðinni eru hin nýsamþykktu lög afdráttarlaus um að bindingarfjárhæð haldist óbreytt út bindingartímann. Nýtt fyrirkomulag hinnar sérstöku bindiskyldu mun þó gera aðilum kleift að losa um bindinguna með viðskiptum á markaði.

Leifar fjármagnshafta

Með framangreindum breytingum á lögum um gjaldeyrismál og lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum er sérstakur aflandskrónumarkaður ekki lengur til staðar og þau fjármagnshöft sem innleidd voru í nóvember 2008 hafa nú nánast að öllu leyti verið losuð.

Eftir standa takmarkanir sem hafa það að meginmarkmiði að hin sérstaka bindiskylda á fjármagnsinnstreymi nái tilgangi sínum, þar á meðal takmarkanir á afleiðuviðskiptum í öðrum tilgangi en til áhættuvarna. Þær takmarkanir verða skoðaðar í tengslum við heildarendurskoðun laga um gjaldeyrismál segir í fréttatilkynningu um málið og að samhliða þurfi að skoða varanlegt fyrirkomulag hinnar sérstöku bindisskyldu.