Í gær fjallaði Viðskiptablaðið um að áhættuálag á skuldabréfamarkaði hafi ekki verðið hærra í þónokkurn tíma. Hefur þetta orðið til þess að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hefur hækkað töluvert á síðustu misserum á sama tíma og verðbógluvæntingar hafa nær staðið í stað og stýrivextir lækkað. Að mati Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka ráða markaðsaðstæður miklu um stöðuna sem uppi er.

Að sögn Jóns væri venjulega hægt að skýra þessa hækkun með hækkandi verðbólguvæntingum eða væntingum um hærri nafnvexti. Innflæðishöftin sem sett voru á sumarið 2016 séu hins vegar farin að bíta fast. „Þá er aftur spurningin – nú erum við ennþá með innflæðishöft sem eru að bíta mjög fast, þ.e. þegar vaxtaferillinn er orðinn skarpt upphallandi sem ýtir upp verðbólguálagi á markaði til lengri tíma. Undir venjulegum kringumstæðum er erfitt að túlka það sem eitthvað annað en skoðun markaðarins á hækkandi verðbólguvæntingum til lengri tíma eða menn eigi von á að nafnvextirnir séu að fara að verða hærri. Ef við lítum hins vegar á væntingakönnun Seðlabankans þá er lítill munur á verðbólguvæntingum milli tímabila auk þess sem markaðsaðilar eru heldur ekkert sérstaklega að vænta einhverrar verulegrar hækkunar á vöxtunum.“ Í þessu samhengi má nefna að miðgildi væntinga markaðsaðila um meðaltal skammtímanafnvaxta til næstu 5 ára var 4,8% í síðustu könnun Seðlabankans og hækkaði um einungis 0,1 prósentustig milli ársfjórðunga.

„Ég tel að Seðlabankinn ætti að fara að horfa meira til þess að allavega milda þessi höft til að þurrka ekki alveg út ábatann fyrir erlenda fjárfesta til skamms og meðallangs tíma. Miðað við hvernig fjárfestingarstraumar hafa verið undanfarin misseri þá hefur maður velt því fyrir sér hvort þessir helstu kaupendahópar af óverðtryggðum ríkisbréfum sem hafa verið lífeyrissjóðirnir og lengri verðbréfasjóðir séu einfaldlega nóg. Meðal annars vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru einnig að fjárfesta út fyrir landsteinana og auðvitað að lána til íbúðakaupa. Auðvitað ef þú ert mjög þolinmóður þá minnka á endanum áhrifin af þessari bindiskyldu sem er til eins árs. En það þarf ansi sterk bein og mikla þolinmæði til að fara inn í svona strangar kvaðir eins og eru núna í þessum innflæðishöftum,“ segir Jón.

Mikil útgáfa og skortur á kaupendum

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í byrjun júlí hefur velta á skuldabréfamarkaði dregist nær samfellt saman frá seinni helmingi ársins 2015. Velta á fyrri helmingi þessa árs var um 55% lægri en á seinni helmingi 2015. Þá var annar ársfjórðungur þessa árs sá veltuminnsti á síðustu 6 árum. Voru helstu ástæður minni veltu raknar til innflæðishafta en einnig til þess að mikið hefur verið gefið út af ríkisbréfum á síðustu misserum, en á fyrstu fimm mánuðum ársins var skuldabréfaútgáfa á ársgrunni um 45% hærri en meðaltal síðustu fjögurra ára.

Þá hefur útgáfan nánast aðeins verið óverðtryggð sem hefur aukið á misvægi á markaði að mati viðmælenda Viðskiptablaðsins. Þar að auki hafa umsvif lífeyrissjóðanna töluvert um málið að segja. Frá árinu 2015 hafa þeir farið úr því að veita nær engin sjóðsfélagalán til íbúðakaupa yfir í að lánveitingar þeirra nema nú yfir 100 milljörðum króna nettó á ársgrunni. Þessu til viðbótar flytja sjóðirnir nú um 120 milljarða króna á ári út úr hagkerfinu en skuldabréfaeign sjóðanna minnkaði um 90 milljarða króna á árinu 2017.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .