*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Innlent 18. nóvember 2016 12:20

Innflutningsbann dæmt ólögmætt

Bann á innflutningi á fersku kjöti dæmt ólögmætt í Héraðsdómi Reykjavíkur því er brot á EES samningum.

Ritstjórn
Stjórnvöldum ber að virða heilbrigðisvottun aðildarríkja EES samningsins og geta því ekki bannað innflutning á fersku kjöti
Axel Jón Fjeldsted

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi fyrr í dag innflutningsbann á fersku kjöti ólögmætt þar sem það felur í sér brot gagnvart EES skuldbindingum íslenska ríkisins.

Felst brotið í því að innflutningur á fersku kjöti sé háður sérstöku leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, auk þeirra vottorða og gagna sem krafist er að fylgi matvælunum.

Almenna regla EES samningsins er hins vegar sú að ábyrgðin á eftirliti á dýraheilbrigði matvæla liggi hjá því aðildarríki sem matvælin séu send frá.

SVÞ kvörtuðu til ESA

Samtök verslunar og þjónustu segja í fréttatilkynningu þessa niðurstöðu í fullu samræmi við ábendingar samtakanna sem sendu kvörtun til eftirlitsstofnunar EFTA vegna málsins.

Stofnunin komst í kjölfarið að þeirri niðurstöðu að núgildandi innfluttningsbann á fersku kjöti frá öðrum aðildarríkjum EES samningsins væri andstætt samningnum.

Fengu ekki að flytja inn lífrænt ræktað nautakjöt

„Ferskar kjötvörur ehf., eitt aðildarfyrirtækja SVÞ, stefndi íslenska ríkinu og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem það varð fyrir sökum synjunar á heimild til að flytja til landsins frá Hollandi ferskt lífrænt ræktað nautakjöt,“ segir í fréttatilkynningu samtakanna.

„Undir rekstri málsins krafðist fyrirtækið þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins til að fá úr því skorið hvort íslensk löggjöf væri í samræmi við EES-samninginn. Var fallist á þá beiðni og var niðurstaða dómstólsins að bannið samræmist á engan hátt skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

Að mati Héraðsdóms Reykjavíkur er ekki fullt samræmi á milli EES-löggjafar og íslenskra laga og sýnist misræmið felast í því að innflutningur á fersku kjöti frá öðru aðildarríki EES-samningsins er háður sérstöku leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra auk þess sem þess er krafist að innfluttum matvælum fylgi tiltekin gögn og vottorð.

Stjórnvöldum ber að virða eftirlit í öðrum löndum

Þvert á móti gerir EES-löggjöfin á hinn bóginn að meginstefnu til ráð fyrir því að ábyrgð á dýraheilbrigðiseftirliti matvæla er hjá því aðildarríki sem matvælin eru send frá, í þessu tilviki Hollandi, og að sérstakt eftirlit fer ekki fram á landamærum viðtökuríkis.

Því beri íslenskum stjórnvöldum að virða niðurstöður dýraheilbrigðiseftirlit sem fram fer í öðrum aðildarríkjum í samræmi við sameiginlegar EES-reglur. Þá segir í dóminum að þar sem íslenska ríkið hafi viðhaldið banninu þrátt fyrir niðurstöðu eftirlitsaðila þá hafi slíkt falið í sér vísvitandi og alvarlegt brot gegn skuldbindingum ríkisins.“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim