Á fyrst sjö mánuðum ársins var innflutningur á osti tæplega 90% meiri en á sama tíma í fyrra. Í ár hefur innflutningurinn numið rúmlega 300 tonnum en fyrstu sjö mánuði ársins 2016 nam innflutningurinn 159,4 tonnum. Ef skoðað er tímabilið frá 2010 til 2016, þá jókst innflutningurinn úr 143,9 tonnum í 325 tonn allt árið í fyrra, sem er aukning um 126%.

Er útlit fyrir að innflutningurinn aukist enn frekar næstu árin með auknum tollfrjálsum kvótum á næsta ári að því er segir í Morgunblaðinu. Stefnir í það með sama áframhaldi að útflutningurinn fari í fyrsta sinn yfir 400 tonn, sem er rúmt kíló á hvern landsmann.

Sást ekki fyrir hrun

Erna Bjarnadóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands segir jafnmikinn innflutning án fordæma hér á landi. „Slíkar tölur sáust ekki fyrir hrun. Þá var allt annað landslag í búvörunum og innflutningur óverulegur,“ segir Erna.

„Síðan hafa verið settir tollkvótar og ferðamönnum fjölgað gríðarlega á fáum árum sem hefur aukið eftirspurnina. Gengisstyrkingin hefur líka haft áhrif. Innfluttar vörur hafa lækkað í verði.“

Tollkvóti WTO ekki tollfrjáls

Á fyrstu árum aldarinnar var innflutningurinn á milli 100 til 200 tonn á ári að því er hún greinir frá, en það hafi verið á grundvelli kvóta Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) frá 1995. Tollkvótinn, það er það sem flytja mátti inn á umtalsvert lægri tollum, miðast við 119 tonn í dag.

Árið 2007 var svo bætt við samkvæmt tvíhliða samningi við ESB, samkvæmt 19. grein EES samningsins sem fjallar um verslun um landbúnaðarafurðir, 80 tonnum á ári, en 20 tonn fyrir svæðisbundinn ost sem eru tollfrjáls. Dæmi um slíkan ost má nefna Roquefort ostinn frá Frakklandi.

Tollfrjáls kvóti verður 510 tonn

Með nýju samkomulagi hækka þessar tölur í 300 og 210 tonn frá og með miðju næsta ári. Það er samanlagt mun hinn tollfrjálsi kvóti aukast úr 100 upp í 510 tonn. Það verður þó gert í skrefum yfir fjögur ár.

Heildarneyslan á osti að sögn Ernu á tímabilinu frá ágúst á síðasta ári til júli á þessu ári var um 6.292 tonn, sem þýðir að þegar öll viðbótin verður komin til verður hinn tollfrjálsi ostur því 6-7% af heildarneyslunni eins og hún er núna. Erna segir að þetta hlutfall muni þrýsta verði á osti niður sem mun hafa áhrif á afurðaverð til bænda.