Af þeim 197.094 sem voru að jafnaði starfandi hér á landi á síðasta ári voru innflytjendur að jafnaði 32.543, eða 16,5% þeirra.
Konur voru 92.855 þeirra sem voru starfandi á síðasta ári og karlar 104.249 að því er Hagstofan greinir frá.

Þegar horft er til búsetu kemur í ljós að árið 2017 voru starfandi með skráð lögheimili á Íslandi að jafnaði 190.909 á árinu eða 96,9% allra starfandi.

Alls höfðu 163.660 lögheimili hér á landi og einhvern íslenskan bakgrunn eða 83,5%. Af innflytjendum voru 27.249 með lögheimili á Íslandi eða 83,7% en 5.295 höfðu ekki lögheimili á Íslandi eða 16,3%.

Einstaklingur sem fæddur er erlendis og á foreldra og báða afa og báðar ömmur sem einnig eru fædd erlendis, telst innflytjandi samkvæmt aðferðum Hagstofunnar. Aðrir teljast hafa einhvern íslenskan bakgrunn.